Félagasamtökin

Samtök um áhrifaríka umhyggju á Íslandi
kt. 631219-0630

Í stjórn sitja:
Elías Bjartur Einarsson,
Gamithra Marga,
Georg Lúðvíksson,
Grétar Guðmundsson,
Kári Kristinsson og
Magnús Þór Torfason

Samþykktir félagsins

1.gr. Nafn

Félagið heitir Samtök um áhrifaríka umhyggju á Íslandi og ensk þýðing þess skal vera The Icelandic

Association of Effective Altruism. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.  Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

2. gr. Tilgangur

Samtök um áhrifaríka umhyggju (e. Effective Altruism) á Íslandi er þverpólitískt félag fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að starfa saman að áhrifaríkri umhyggju í hvaða formi sem er og vekja athygli á málstaðnum. Í því felst að stuðla að því að sem flestir sem vilja láta gott af sér leiða geri það á sem áhrifaríkastan hátt og beiti vísindalegum aðferðum við mat á árangri. Félagið leggur meiri áherslu á grunngildi áhrifaríkrar umhyggju en á sérstök málefni eða verkefni sem kunna að vera umdeilanleg hverju sinni.

Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að vera vettvangur umræðna og fræðslu í tengslum við áhrifaríka umhyggju yfir í að hafa jákvæð áhrif á hvernig fólk, fyrirtæki, félagasamtök og hið opinbera nálgast góðgerðarmál.

Starfsemi félagsins er fjármögnuð með styrkjum frá félagsmönnum, öðrum styrktaraðilum og frá alþjóðasamtökum um áhrifaríka umhyggju.

3. gr. Starfsemi félagsins

Tilgangi sínum skal félagið ná með því að standa fyrir: Fundum, atburðum, þjóðmálaumræðu, og hverju því öðru sem fallið er til að vekja jákvæða athygli á áhrifaríkri umhyggju. Eingöngu er um að ræða félag til almannaheilla sem starfar að mannúð og góðgerðarmálum og enginn atvinnurekstur er í félaginu. Samtökin leggja meðal annars áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Að standa að fræðslu um áhrifaríka umhyggju, t.d. á vefnum og með því að standa að fundum og kynningum.

  • Að sjónarmið áhrifaríkrar umhyggju fái sem víðastan hljómgrunn í íslensku samfélagi þegar kemur að góðgerðarmálum og framlögum til þeirra.

  • Að veita fólki, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera aðhald þegar kemur að góðgerðarmálum á Íslandi með það að markmiði að sem flestir nálgist málin með það að leiðarljósi að hámarka árangur og mæla áhrif og árangur með vísindalegum aðferðum.

  • Að mynda tengsl við og eiga samstarf við samskonar erlend félög (kennd við “Effective Altruism”) og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefnið.

4. gr. Félagsaðild

Félagsaðild er opin öllum sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Ekkert félagsgjald er innheimt en

félagsgjald næsta árs skal ákvarða á aðalfundi. Þó félagsgjald sé ekkert, er engu að síður tekið við

frjálsum framlögum inn á bankareikning félagsins. Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu. Stjórn skal halda utan um félagaskrá og teljast þeir félagsmenn sem skráðir eru í samþykktu félagatali. Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa þeir sem skráðir voru í félagið í síðasta lagi 2 vikum fyrir aðalfund. 

5. gr. Starfstímabil

Starfstímabil félagsins er almanaksárið.  Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.  

6. gr. Aðalfundir

Aðalfund skal halda innan sex mánaða frá lokum reikningsárs ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.  Til almennra félagsfunda skal boða með sama hætti og aðalfundar. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti félagsmanna með kosningarétt ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

  2. Skýrsla stjórnar lögð fram

  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

  4. Lagabreytingar

  5. Ákvörðun félagsgjalds

  6. Kosning stjórnar

  7. Kosning endurskoðanda, skoðunarmanna eða trúnaðarmanna

  8. Önnur mál

7.gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð 3-8 mönnum, formanni, gjaldkera og 1–6 meðstjórnendum,  kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn.  Einnig skal kjósa 1-8 varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti.  Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda.  Formaður boðar til funda.  Formaður ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri rita prókúru félagsins. 

Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins, boðar stjórnarfundi og stýrir fundum stjórnar.

Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins, hefur umsjón með fjármögnun þess og að halda félagaskrá.

Stjórn skal halda fundi eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað

verði til stjórnarfundar. Meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundi. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði

formanns úrslitum. Stjórn telst ályktunarbær ef a.m.k. 3 stjórnarmenn sitja fund.

8.gr. Ráðstöfun fjármuna

Tekjum af starfsemi félagsins skal varið í verkefni á vegum félagsins sem samræmast tilgangi þess. Verði rekstrarafgangur af starfseminni tekur stjórn ákvörðun um hvort afgangurinn færist yfir til næsta árs eða hvort þeim fjármunum er ráðstafað í þágu góðgerðarmála sem meirihluti stjórnar velur í samræmi við hugmyndafræði áhrifaríkrar umhyggju. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.

9.gr. Endurskoðendur

Á aðalfundi skal kjósa einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna ásamt varamönnum þeirra. Skulu þeir rannsaka reikninga félagsins fyrir hver starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðendur eða skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna, félagsmanna eða starfsmanna félagsins.  Trúnaðarmenn sem kosnir eru úr hópi félagsmanna mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það. 

10.gr.  Ársreikningar

Reikningsár er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðanda, skoðunarmann eða trúnaðarmann eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund

11. gr. Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða, ásamt einföldum

meirihluta stjórnar. Við slit félags skal stjórn tryggja að allir fjármunir og aðrar eigur félagsins umfram

skuldir og umfram kostnað við slit félagsins, skulu gefnar til almannaheillafélagsins Bergsins headspace.

12.gr. Ýmis ákvæði

Þar sem ákvæði þessa samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt. 

Lög þessi voru fyrst samþykkt á stofnfundi þann 11.11.2019 og síðast uppfærð á aðalfundi 21.1.2024.